Ferill 992. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1708  —  992. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um tekjur Þjóðskrár og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu miklar sértekjur höfðu Þjóðskrá og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun af þjónustu sem veitt var opinberum aðilum undanfarin fimm ár, greint eftir ári? Hve stór hluti þeirrar þjónustu var nauðsynlegur viðkomandi aðila til að uppfylla lögbundin verkefni hans?

    Um er að ræða svör frá viðkomandi stofnunum sem ráðuneytið hafði milligöngu um að afla. Svar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) miðast við stofnun HMS árið 2020. Sértekjur HMS og Þjóðskrár sjást í eftirfarandi töflu. 1 Allar upphæðir eru í krónum.

2019

2020 2021 2022 2023
HMS

6.718.424 9.952.956 26.197.474 36.751.012
Þjóðskrá 245.579.778 202.762.431 205.590.648 100.924.303 64.682.383

    Áður en HMS miðlar upplýsingum til opinberra aðila leggur stofnunin mat á hvort umbeðnar upplýsingar séu nauðsynlegar fyrir viðkomandi og fer það eftir eðli umbeðinna upplýsinga hvernig það er gert. Horft er til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, í því tilliti og eru almennt ekki afhentar persónugreinanlegar upplýsingar til annarra stofnana nema farið hafi fram mat á því hvort skýr lagaheimild sé til staðar og ræðst það jafnan af því hvert tilefnið er og tilgangurinn og hvort upplýsingarnar séu nauðsynlegar. Varðandi t.d. miðlun á upplýsingum úr fasteignaskrá er horft til laga um skráningu, merki og mat fasteigna, nr. 6/2001, þar sem kemur beinlínis fram að opinberir aðilar skuli notast við upplýsingar úr fasteignaskrá sem grundvöll viðskipta sinna eftir því sem við getur átt. Þá er bent á að ekki er tekið gjald fyrir alla upplýsingamiðlun stofnunarinnar til opinberra aðila en sem dæmi miðlar hún mikið af upplýsingum til Hagstofunnar og Seðlabanka Íslands án endurgjalds.
    Áður en Þjóðskrá miðlar upplýsingum til annarra opinberra aðila leggur stofnunin mat á hvort umbeðnar upplýsingar séu nauðsynlegar fyrir viðkomandi. Óskað er eftir skýringum á því í hvaða tilgangi upplýsingarnar verði notaðar, á grundvelli hvaða lagaheimildar viðkomandi telji sig hafa rétt á aðgangi og hvort miðlunin sé í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Með hliðsjón af ofangreindu mati HMS og Þjóðskrár má draga þá ályktun að opinberir aðilar kaupi aðeins þjónustu sem er nauðsynleg til að uppfylla þau lögbundnu verkefni sem þeim er falið að sinna.

1    Hér er eingöngu miðað við sértekjur, þ.e. án lögboðinnar gjaldtöku.